Dauðarefsingar á Íslandi
eftir Ragnheiði Bragadóttur


Frá örófi alda hefur dauðarefsingum verið beitt vegna brota gegn tilteknum reglum samfélagsins. Til eru ritaðar heimildir um beitingu slíkra refsinga, auk þess sem fornleifafundir í ýmsum löndum bera þessa einnig vott. Þegar Ísland byggðist komu landnámsmenn frá héruðum og löndum þar sem slíkum refsingum var beitt. Engin lagaheimild var hins vegar til að beita líflátsrefsingum eða öðrum líkamsrefsingum hér á landi á þjóðveldisöld (930-1262). Í handritum sem varðveist hafa frá síðustu áratugum þjóðveldisins, og nefnd eru Grágás, eru lög þjóðveldisins skráð. Hugsanlegt er að þau gefi ekki alveg rétta mynd af löggjöfinni eins og hún var á fyrstu áratugum Íslandsbyggðar, því að þá hlýtur rétturinn að hafa byggst á þeirri löggjöf sem landnámsmenn þekktu úr heimalöndum sínum. Ef til vill hafa því verið ákvæði í lögum um líflátsrefsingar á fyrstu áratugum byggðar í landinu. Á þjóðveldisöld var ekki til neitt allsherjarvald og framkvæmd refsinga var í höndum einstaklinganna sjálfra. Ýmsar frásagnir eru um það í Íslendingasögum og Sturlungu að menn væru líflátnir án dóms og laga, einkum þjófar og fjölkunnugt fólk.

Í lok 13. aldar voru lögteknar hér á landi tvær lögbækur og voru Grágásarlög þá afnumin. Lögbækurnar voru Járnsíða frá 1271, en hún reyndist óvinsæl og skammlíf
og Jónsbók sem var lögtekin árið 1281 og gilti síðan í margar aldir. Við lögtöku lögbókanna fluttist framkvæmd refsinga til ríkisvaldsins. Með lögbókunum voru líflátsrefsingar og aðrar líkamlegar refsingar fyrst lögfestar á Íslandi með fullri vissu. Var síðan kveðið á um dauðarefsingar í norskum og dönskum lögum sem voru lögfest hér á síðari öldum og síðast í almennum hegningarlögum handa Íslandi frá 1869. Heimild til dauðarefsinga var síðan í lögum allt til ársins 1928, er hún var afnumin.

Ýmis brot vörðuðu líflátsrefsingu samkvæmt Jónsbók. Má þar nefna manndráp, sumar tegundir líkamsmeiðinga, t.d. að höggva hönd eða fót af manni eða stinga úr honum auga, nauðgun og kvennarán, sum þjófnaðarbrot, landráð og trúvillu. Í Jónsbók kemur fram sú hugsun að þungar refsingar fæli menn frá brotum. Er það í samræmi við þau sjónarmið sem voru ríkjandi í Evrópu, þ.e. að refsingar skyldu vera þungar og framkvæmd þeirra sem hryllilegust. Engin ákvæði voru um það í Jónsbók með hvaða hætti hinir dauðadæmdu skyldu teknir af lífi og heimildir skortir um framkvæmd refsidóma á fyrstu öldunum eftir lögtöku Jónsbókar. Þó er ljóst að aðferðirnar við aftökurnar voru í upphafi hálshöggning og henging og síðar bættust við drekkingar og brennur, en fyrsta galdrabrenna á Íslandi fór fram árið 1625. Í refsiheimildum sem síðar komu til sögunnar, Stóradómi 1564 og Norsku lögum Kristjáns konungs V frá 1687, var hins vegar getið um aftökuaðferðir. Í Stóradómi, sem var löggjafardómur Alþingis, var fjallað um skírlífisbrot, sifjaspell (blóðskömm), hórdóm og frillulifnað. Þrjár fyrstnefndu brotategundirnar vörðuðu lífláti og var tekið fram að karlmenn skyldu hálshöggnir en konum drekkt. Í Norsku lögum, sem voru lögfest hér að hluta til á 18. öld, var mælt fyrir um hálshöggningu og hengingu.

Í annálum eftir aldamótin 1600 eru betri upplýsingar um aftökur og framkvæmd þeirra. Sakamenn voru dæmdir til dauða bæði á Alþingi við Öxará, en þar var æðsta dómþing á landinu, og í öðrum héruðum landsins. Dauðadómunum var síðan fullnægt á Alþingi eða á þeim þingstöðum öðrum þar sem þeir voru kveðnir upp eða í nánd við þá. Heimildir um aftökur á Þingvöllum eru mun ítarlegri en um framkvæmdina annars staðar á landinu. Ýmis örnefni bæði á Þingvöllum og annars staðar bera vitni um hina gömlu refsiframkvæmd, t.d. Drekkingarhylur, Brennugjá, Höggstokkseyri, Gálgahraun og svo mætti lengi telja.

Fyrsti Alþingisdómurinn um dauðarefsingu sem getið er í Alþingisbókum er frá árinu 1597. Næsti dómur var kveðinn upp árið 1602. Síðan gengu margir líflátsdómar, allt fram á 18. öld. Er talið að á 150 ára tímabili, frá 1602 til 1752, hafi a.m.k. 72 menn verið líflátnir á Þingvöllum. Ekki er ljóst hve margir sakamenn voru líflátnir annars staðar á landinu, en talið er að á tímabilinu 1400-1830 hafi þeir verið tæplega 100 talsins.

Á Alþingi tíðkaðist að fullnægja líflátsdómum um leið og þeir höfðu verið kveðnir upp. Lögþingsmenn voru viðstaddir aftökurnar. Sýslumaður sem kom með sakamann til Alþingis hafði umsjón með aftökunni. Hann sá um að útvega sakamanni prest. Hlutverk hans var að tala um fyrir sakamanninum og fá hann til að iðrast gerða sinna. Sýslumanni bar einnig að sjá um að böðullinn ynni verk sitt sómasamlega. Böðulsstarfið þótti fyrirlitlegt og var litið niður á böðla. Aftökur utan Alþingis fóru einnig fram undir umsjón sýslumanns og fylgdi prestur hinum seka á aftökustaðinn, sem oft var nálægt þingstaðnum. Talið er að ekki hafi verið fleiri viðstaddir aftökur en töldu sér það skylt og þær hafi því ekki verið skemmtun fyrir almenning, eins og víða var erlendis, þar sem aftökustaðir voru oft inni í borgum og bæjum, öðrum til viðvörunar. Eftir aftökuna voru hinir líflátnu dysjaðir nálægt aftökustað. Væru sakamenn hálshöggnir, voru höfuðin stundum sett á stöng og var það lögboðið eftir 1749. Til eru dæmi um að menn væru klipnir með glóandi töngum, útlimir þeirra brotnir eða þeir handarhöggnir áður en þeir voru hálshöggnir, en heimild var til handarhöggningar og tangarklips í tilskipun frá árinu 1697.

Hérlendis voru menn alltaf höggnir með öxi, en ekki sverði eins og stundum tíðkaðist erlendis og þótti „virðulegra”. Höggstokkarnir voru trjádrumbar, oft rekaviður. Talið er að henging hafi verið framkvæmd þannig að trjádrumbur var lagður milli kletta eða hárra steina eða yfir klettaskorur. Sumir telja þó að þær hafi farið fram í reistum gálgum, eins og tíðkaðist erlendis. Konum var drekkt í hyljum í ám eða lækjum. Þegar menn voru brenndir hefur þurft mikið af hrísi, en af honum var nóg á Þingvöllum. Hálshöggning var algengasta aftökuaðferðin á Þingvöllum, en henging annars staðar á landinu.

Ákvæði Jónsbókar um refsingar giltu að mestu leyti til ársins 1734. Með konungsbréfi það ár voru hin gömlu ákvæði um refsingar fyrir þjófnað og manndráp afnumin og skyldi í þeirra stað farið eftir Norsku lögum. Samkvæmt þeim lá líflátsrefsing við stórþjófnuðum í undantekningartilvikum, en með tilskipun árið 1771 voru dauðarefsingar fyrir þjófnaði afnumdar. Gætti þar áhrifa upplýsingarstefnunnar, en í Evrópu börðust upplýsingarstefnumenn fyrir vægari og mannúðlegri refsingum. Með konungsbréfi frá 1735 var bannað að fullnægja dauðadómum í Noregi og Danmörk fyrr en málið hafði verið lagt fyrir Kansellíið og konungur síðan ákveðið að aftaka skyldi fara fram. Þessi fyrirmæli voru ekki birt hér á landi og höfðu því ekki lagagildi hér, en eftir þeim var farið í framkvæmd. Þegar leið á 18. öldina var farið að slaka á framkvæmd refsinga samkvæmt Stóradómi og með konungsbréfi árið 1808 var líflátsrefsing fyrir hórdómsbrot afnumin. Þróun í átt til mildari refsinga hófst síðar hérlendis en í Evrópu, enda var upplýsingaröldin hér seinna á ferðinni en þar og er talið að hún hafi ekki náð hámarki fyrr en um aldamótin 1800. Árið 1838 var danskur sakamálaréttur innleiddur hér í heild, en árið 1869 fengu Íslendingar sín fyrstu hegningarlög. Eru þau síðustu íslensku lögin sem höfðu ákvæði um dauðarefsingu. Samkvæmt lögunum varðaði manndráp af ásettu ráði „typtunarhúsvinnu 8 ár eður fleiri eða æfilangt, eða lífláti” ef miklar sakir voru. Morð „að undirlögðu ráði” varðaði lífláti.

Eftir 1750 fækkaði aftökum mjög, en þá voru sakamenn sendir til Danmerkur til að afplána refsivist. Rétt eftir aldamótin 1800 var íslenskur sakamaður fluttur til Björgvinjar í Noregi og hálshöggvinn þar. Var ástæðan sögð sú að hér fengist ekki hæfur böðull. Sakamaður þessi var Bjarni Bjarnason, bóndi á Sjöundá, sem dæmdur var til lífláts fyrir morð ásamt ástkonu sinni, Steinunni Sveinsdóttur. Hún lést hins vegar í fangelsinu í Reykjavík áður en til fullnustu dómsins yfir henni kæmi og var dysjuð
á Skólavörðuholti. Næstsíðasta aftaka á Íslandi fór fram árið 1790. Síðan liðu 40 ár þar til síðasta aftakan fór fram, en það var 12. janúar 1830 þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu fyrir morðið á Natani Ketilssyni. Dauðadómar voru kveðnir upp í marga áratugi eftir þetta, þótt þeim væri ekki framfylgt, heldur breytt í ævilangt fangelsi. Síðasti dauðadómur var kveðinn upp á Íslandi í Landsyfirrétti árið 1914 og var hann staðfestur í Hæstarétti í Kaupmannahöfn ári síðar. Sakborningurinn var kona nokkur sem dæmd var fyrir morð, en hún hafði drepið bróður sinn með því að gefa honum eitrað skyr. Var dóminum breytt í ævilangt fangelsi og konan loks náðuð árið 1919. Árið 1928 var til meðferðar á Alþingi frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum. Þingmaður Dalamanna, Sigurður Eggerz, setti þá fram tillögu um afnám líflátsrefsinga. Var hún samþykkt án teljandi umræðna og var dauðarefsing þar með afnumin á Íslandi.

Á síðustu áratugum hafa verið gerðir margir alþjóðlegir sáttmálar um mannréttindi, sem Ísland er aðili að. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948 var fyrsti afrakstur alþjóðlegrar samvinnu á þessu sviði. Þar segir að allir menn eigi rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Réttur manna til lífs er einnig tryggður í mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950 og í alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966. Í þeim báðum var þó upphaflega gert ráð fyrir líflátsdómum að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Með samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu 1983 var dauðarefsing afnumin og þar segir að engan megi dæma til slíkrar refsingar eða lífláta á friðartímum. Með annarri valfrjálsri bókun við áðurnefndan samning Sameinuðu þjóðanna frá 1966 skuldbinda aðildarríkin sig til að taka ekki fólk af lífi innan lögsögu sinnar og beita öllum nauðsynlegum ráðum til þess að afnema þar dauðarefsingu. Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur á Íslandi árið 1995 og eru ákvæði hans þar með orðin hluti af íslenskum rétti. Ári síðar var mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar mikið breytt og þau aukin. Var þá m.a. sett í stjórnarskrána bann við dauðarefsingu, en þar segir nú að aldrei megi mæla fyrir um slíka refsingu í lögum.

Í samræmi við alþjóðasáttmálana hefur vaxandi fjöldi þjóða afnumið ákvæði um dauðarefsingu úr lögum sínum, ekki síst á síðustu árum. Aftökufjöldi hefur þó verið mjög breytilegur í heiminum. Um 1980 jukust aftökur mjög en fækkaði aftur til 1986. Síðan þá hefur þeim fjölgað og voru yfir 2000 á ári um miðjan síðasta áratug. Sveiflurnar í aftökum má rekja til breytilegrar notkunar dauðarefsingar í örfáum löndum, einkum Kína og Íran.

Bandaríkjamenn hafa skorið sig nokkuð úr á Vesturlöndum hvað varðar afstöðu til dauðarefsinga. Heimilt er að beita dauðarefsingum í 38 ríkjum Bandaríkjanna og á síðustu árum hafa verið gerðar tilraunir til að taka aftur upp dauðarefsingar í ríkjum sem höfðu afnumið hana. Þótt dauðarefsing sé leyfð í ríkjunum 38 er ekki þar með sagt að henni sé beitt í þeim öllum. Þannig hafa 12 ríki sem leyfa dauðarefsingu ekki beitt henni.

Ragnheiður Bragadóttir er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
Við samantekt þessa hefur verið stuðst við ýmis rit, einkum bækur Páls Sigurðssonar, prófessors, Brot úr réttarsögu (1971)
og Svipmyndir úr réttarsögu (1992)
Öll réttindi áskilin © 2003 Listasafnið á Akureyri